Um okkur

Forsagan

Björgunarsveitin Ingunn var stofnuð á vormánuðum 1982.
Sveitin er staðsett á Laugarvatni og er nefnd eftir síðustu húsfreyjunni á Laugarvatnsbænum.

Hjónin Ingunn Eyjólfsdóttir og Böðvar Magnússon tóku við búi á Laugarvatni, ættaróðali Ingunnar, árið 1907.

Þau seldu jörðina íslenska ríkinu árið 1928 svo þar mætti rísa héraðsskóli. Laugarvatn varð með tímanum mikið skólasetur og voru þar starfræktir fimm skólar er mest var.

Jónas Jónsson frá Hriflu varð menntamálaráðherra árið 1927 og var talsmaður þess að skóli yrði stofnaður að Laugarvatni og fór svo að Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsnæði Héraðsskólans og verður að teljast með glæsilegustu byggingum á Íslandi.

Það var svo Bjarni Bjarnason, skólastjóri héraðsskólans, sem barðist ötullega fyrir því að stofnaður yrði Menntaskóli að Laugarvatni árið 1953 en sú barátta tók sex ár lauk með því að við Laugarvatni reis menntaskóli.

Ingunn og Böðvar áttu heimili á Laugarvatni til æviloka.

Böðvar gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, var m.a. hreppstjóri í 54 ár og sat um áratugaskeið í hreppsnefnd, sýslunefnd, sóknarnefnd og byggingar- og skólanefndum á Laugarvatni.

Böðvar lést 1966 á 89. aldursári og Ingunn 1969 á 96. aldursári.

Björgunarsveitin

Skráðir félagar í sveitinni eru um 60. Flestir búa á svæðinu við Laugarvatn þó einhverjir séu einnig svokallaðir fjarfélagar.
Sveitin á sitt aðsetur að Lindarskógi 7 að Laugarvatni í húsnæði sem reist var af öflugum hópi félaga árið 2007.